Barði NK kom til Seyðisfjarðar í morgun með tæp 2.100 tonn af kolmunna sem fékkst í færeysku lögsögunni. Heimasíðan ræddi við Runólf Runólfsson skipstjóra og spurði fyrst í hve mörgum holum aflinn hefði fengist. „Hann fékkst í fjórum holum. Í fyrsta holinu fengust 330 tonn, 470 tonn í því næsta, þá 606 tonn og loks 705 tonn. Í fyrsta holinu var dregið í 18 -19 tíma en í síðasta holinu í 12 tíma. Þetta er fínasta veiði og fiskurinn sem þarna fæst er virkilega flottur. Veiðistaðurinn var austan við Færeyjar, austan í Múkkagrunni. Þarna voru við og Svanurinn einu íslensku skipin en auk okkar voru þarna líka tvö færeysk og tvö grænlensk skip. Þetta er fyrsti túrinn í færeysku lögsöguna í haust en að undanförnu höfum við verið að veiða kolmunna í Rósagarðinum í íslenskri lögsögu. Við höfum fengið tæp 7000 tonn í Rósagarðinum í fjórum túrum. Ef hefði verið veður þá hefðum við hiklaust farið í Rósagarðinn aftur en þar var bölvuð bræla. Við erum afar sáttir við kolmunnaveiðarnar í haust, það er ekki hægt annað,“ segir Runólfur.