Barði NK dregur Vilhelm Þorsteinsson EA út úr Norðfjarðarhöfn snemma í morgun. Lengst til hægri er björgunarskipið Hafbjörg sem var til taks. Ljósm. Smári Geirsson

Þegar Vilhelm Þorsteinsson EA kom að mynni Norðfjarðarhafnar sl. mánudag með 900 tonn af síld varð bilun í stjórnbúnaði skipsins sem orsakaði að það fór á fulla ferð afturábak en síðan drapst á vélinni. Þetta leiddi til þess að skipið strandaði á sandbakka suður af hafnarmynninu. Björgunarskipið Hafbjörg kom fljótt til aðstoðar og síðan dró Barði NK Vilhelm Þorsteinsson af strandstað. Samkvæmt upplýsingum frá Guðmundi Þ. Jónssyni skipstjóra á Vilhelm urðu litlar skemmdir á skipinu vegna strandsins. Einu skemmdirnar eru á stýrinu. Guðmundur segir að líklega hafi svonefndur skiptiteinn farið í sundur en hugsanlega þurfi að framkvæma öxuldrátt til að kanna vel hvað gerðist. „Við vorum í reynd heppnir að þetta skyldi gerast þarna. Ef þetta hefði til dæmis gerst inni í höfninni hefði skipið líklega annað hvort lent á stálkanti eða grjótgarði en ekki á mjúkum sandinum,“ segir Guðmundur.

Snemma í morgun lagði Barði af stað með Vilhelm Þorsteinsson í togi til Akureyrar þar sem skipið mun fara í slipp. Þorkell Pétursson, skipstjóri á Barða, segir að gera megi ráð fyrir að siglingin norður taki um 30 tíma. „Við förum varla meira en 6 – 7 mílur á klukkustund og ávallt verður að gæta þess að vírinn á milli skipanna sé í sjó því þá er minna átak. Það þarf að fara gætilega, ekki síst ef eitthvað er að veðri. Annars er veðurútlitið ágætt,“ segir Þorkell.

Frá Akureyri mun Barði síðan halda vestur fyrir land til síldveiða.