Frystitogarinn Blængur NK landaði í Neskaupstað í fyrradag að lokinni 39 daga veiðiferð. Veiðiferðin var tvískipt en skipið millilandaði 20. október sl. Aflinn var 860 tonn og verðmæti hans 310 milljónir króna. Bjarni Ólafur Hjálmarsson var skipstjóri í veiðiferðinni og segir hann veðrið hafi reynst þeim Blængsmönnum erfitt: „Það var mikið af brælum í þessum túr. Það má segja að túrinn hafi einkennst af flótta undan veðri. Þegar hægt var að veiða gekk það hins vegar bara vel. Við vorum mest á Vestfjarðamiðum en síðan veiddum við gulllax fyrir sunnan land. Aflinn var býsna blandaður; mest ufsi, grálúða og þorskur. Næst á dagskránni hjá Blængi er túr í Barentshafið en ég mun sleppa við hann. Nýr skipstjóri, Sigurður Hörður Kristjánsson, mun fara með skipið þangað og hann þekkir Barentshafið vel,allavega Noregsmegin,“ segir Bjarni Ólafur.
Sigurður Hörður Kristjánsson tók við sem skipstjóri á Blængi þegar Theodór Haraldsson lét af því starfi, en Theodór er nú stýrimaður á Bjarna Ólafssyni AK. Heimasíðan hitti Sigurð Hörð að máli í gær þegar verið var að undirbúa Blæng fyrir Barentshafstúrinn. „Mér finnst gott að vera kominn hingað en ég á góðar minningar frá Neskaupstað. Ég kom hingað ungur maður og starfaði hjá Gylfa Gunnarssyni. Hjá Gylfa var mitt helsta verkefni að sinna laxeldinu hjá Mánalaxi og eins var ég með honum á snurvoð. Mína fyrstu reynslu af togarasjómennsku fékk ég líka í Neskaupstað um 1990. Þá fór ég í nokkra túra á Bjarti með Sveini Benediktssyni og það var góð reynsla. Ég hef verið á ýmsum togurum hér á landi en lengst á Samherjaskipunum Hjalteyrinni og Akureyri. Á erlendum skipum hef ég síðan mest verið frá 2008 og gegndi lengi skipstjórastarfi á skipum DFFU, dótturfélags Samherja. Síðasta skipið sem ég var með hjá DFFU heitir Berlin. Nú er ég að fara með Blæng í Barentshafið og þar eigum við kvóta upp á um 500 tonn í Rússasjó og síðan má veiða um 200 tonn Noregsmegin. Ég þekki vel til Noregsmegin í Barentshafinu en ég hef einungis einu sinni áður veitt Rússlandsmegin. Það hefur verið heldur róleg veiði að undanförnu á þessum miðum en vonandi á þetta eftir að ganga vel hjá okkur,“ segir Sigurður Hörður.