Blængur NK nýkominn úr Barentshafi. Ljósm. Smári GeirssonBlængur NK nýkominn úr Barentshafi.
Ljósm. Smári Geirsson
Frystitogarinn Blængur NK kom til Neskaupstaðar úr Barentshafinu sl. föstudagskvöld. Túrinn var frábær og alger mettúr hjá skipinu; aflinn 1430 tonn upp úr sjó að verðmæti 512 milljónir fob. Hásetahluturinn úr túrnum nemur um 5,5 milljónum króna, en heildarlaunagreiðslur nema 225 milljónum þar af launatengd gjöld um 40 milljónum. Heimasíðan ræddi við Theodór Haraldsson, sem var skipstjóri í veiðiferðinni og spurði hvort ríkti ekki ánægja með veiðiárangurinn hjá áhöfninni: „Jú, ég held ég geti fullyrt það. Túrinn tók rétt tæplega 40 sólarhringa og það var mokveiði nánast allan tímann. Fiskurinn sem fékkst var yfirleitt mjög góður en aflinn var fyrst og fremst þorskur eða 1330 tonn og síðan var 100 tonn af ýsu. Lestarnar voru nánast sneisafullar af þorskflökum. Veðrið var líka dásamlegt þarna austurfrá. Skipið hreyfðist aldrei fyrr en við vorum að koma hér upp að landinu – þá var siglt inn í lægðasúpuna. Við vorum lengst af á veiðum á Skolpenbanka og Kildinbanka, sem er norðaustur af Múrmansk. Svo kom að því að stóru hafsvæði var lokað og þá færðum við okkur sunnan til á Gæsabanka og þar var mokveiði. Þegar við vorum á Gæsabanka vorum við um 50-60 mílur frá eynni Novaya Zemlya. Ég held að verði að segjast að þessi Barentshafstúr hafi verið afar vel heppnaður,“ segir Theodór.
 
Verið er að landa úr Blængi en ráðgert er að hann haldi til veiða á ný nk. miðvikudag. Í þeirri veiðiferð mun verða lögð áhersla á grálúðu- og ufsaveiði.