Loðnuveiðin hefur farið afar hægt af stað. Skipin hafa töluvert verið að leita og afli hefur verið tregur. Þau hafa togað lengi með misjöfnum árangri. Frést hefur af loðnu frá rannsóknarskipinu fyrir vestan en þar er ekkert veður.
Rannsóknarskipið hafði orðið vart við töluvert magn af loðnu þegar það þurfti að gera hlé á leiðangri sínum út af veðri. Hægt er að sjá leitarleggi rannsóknarskipsins inná heimasíðu Hafrannsóknastofnunnar, www.hafro.is. Bundnar eru vonir við að veður verði komið á svæðið um helgina og að þá verði hægt að ná utan um mælinguna á loðnunni.
Vilhelm Þorsteinsson EA kom til Neskaupstaðar í morgun og er að landa 1.200 tonnum af loðnu.
Ísfisktogarinn Bjartur er að landa 98 tonnum í Neskaupstað. Uppistaða aflans er þorskur en auk þess er hann með dálítið af ufsa, ýsu og karfa.
Starfsfólk fiskiðjuversins í Neskaupstað situr ekki aðgerðalaust á meðan loðnan lætur bíða eftir sér. Þar er hafin vinnsla á ufsa sem kemur úr Bjarti NK, Gullver NS og Bergey VE. Þorskafli sömu skipa fer hins vegar til vinnslu á Seyðisfirði.
Beitir hélt til kolmunnaveiða í færeysku lögsögunni í gærkvöldi ásamt Jóni Kjartanssyni og Hoffelli en veður hefur verið erfitt þar niðurfrá og hafa skip ekki verið á kolmunnaslóðinni síðustu daga.