Uppsjávarskip Síldarvinnslunnar bíða þessi að makríllinn bæti á sig. Ljósm. Hákon Viðarsson.Skip Síldarvinnslunnar hafa ekki hafið makrílveiðar ennþá en segja má að þau séu í startholunum. Þessa dagana og vikurnar er fiskurinn að fitna og gæði hans aukast eftir því sem tíminn líður. Gera má ráð fyrir að í íslensku lögsögunni séu gæðin hvað mest í septembermánuði og enn aukast þau eftir að fiskurinn er horfinn úr lögsögunni. Á meðan skipin bíða þess að hefja veiðarnar er dyttað að þeim og unnið er af krafti að undirbúningi vertíðarinnar í fiskiðjuverinu. Þessa dagana er til dæmis verið að setja upp vélar og búnað í nýrri pökkunarstöð fiskiðjuversins.

Á meðan á biðinni stendur er að sjálfsögðu fylgst náið með gangi makrílveiða hjá þeim skipum sem þegar hafa hafið þær. Vinnsluskipið Vilhelm Þorsteinsson EA hefur til dæmis landað frosnum afla tvisvar í Neskaupstað eftir að hann hóf veiðar. Hann landaði fyrst 476 tonnum 25. júní og sl. þriðjudag landaði hann 480 tonnum. Vilhelm hefur ekki átt í neinum vandræðum að fiska fyrir vinnsluna um borð og sama er að segja um Polar Amaroq sem veiðir í grænlensku lögsögunni. Athygli hefur vakið að makríl virðist vera að finna víða við landið þannig að þau skip sem þegar hafa hafið veiðar eru dreifð.