Bubbi Morthens stjórnar upptöku í messanum.  Ljósm. Þórhildur Eir Sigurgeirsdóttir

Þegar tekur að hausta verða á dagskrá Stöðvar 2 þættir sem munu bera yfirskriftina Beint úr messa.  Það er Bubbi Morthens sem stýrir þáttunum og verða þeir byggðir á svipaðri hugmynd og þættirnir Beint frá býli sem voru á dagskrá á síðasta ári.

Einn þáttanna úr væntanlegri þáttaröð verður með skip Síldarvinnslunnar og fólkið sem tengist þeim í aðalhlutverki, en annars verða þættirnir teknir upp víða um land.

 

Í gær kom Bubbi ásamt tökuliði til Neskaupstaðar og voru þá tekin upp viðtöl og tónlistaratriði fyrir þáttinn.  Efnt var til tónleika í messa eins skipanna og þar fóru Papar ásamt Gylfa Ægissyni á kostum.  Áheyrendur í messanum skemmtu sér hið besta og það verður fróðlegt að sjá afrakstur vinnu Bubba og félaga birtast á skjánum í haust.

 

Paparnir og Gylfi Ægisson í góðum gír.  Ljósm. Þórhildur Eir Sigurgeirsdóttir