Sl. laugardag þegar Beitir NK var á landleið af kolmunnamiðunum vestur af Írlandi fékk skipið á sig brot sem olli skemmdum um borð. Sem betur fer slasaðist enginn úr áhöfninni og viðbrögð hennar gerðu það að verkum að skemmdirnar urðu minniháttar. Sturla Þórðarson skipstjóri segir svo frá: „Við fylltum skipið um miðnætti aðfaranótt laugardagsins og lögðum þá af stað heim til Neskaupstaðar með 3.100 tonn. Fyrir höndum var löng sigling og þegar hún hófst áttum við eftir að fara um 860 mílur. Brátt skall á okkur hörkubræla og veðurfarið á þessum slóðum getur verið afar slæmt. Við vorum að stýra austan við norður en vindur og sjór var að suðvestan. Þegar vindur er mikill þarna verða öldurnar risavaxnar og heldur ógnvekjandi. Í hádeginu á laugardag, þegar við vorum búnir að keyra í eina 12 tíma, skall fyrirvaralaust brot á bátinn. Það kom á hann aftarlega bakborðsmegin. Þetta var svakalegt dúndur. Tvö kýraugu í klefa á íbúðargangi aðalþilfars sprungu inn og svonefndar blindlúgur sem loka kýraugunum að innanverðu brotnuðu. Að auki brotnaði gluggi á dekkshúsi á efra þilfari. Sjórinn fossaði inn í umræddan klefa og þar var einn úr áhöfninni sem á endanum stóð í sjó í mitti. Fyrir hann hefur þetta verið einkar óþægileg upplifun. Sem betur fer slasaðist enginn í þessum látum og það má alltaf gera við járn og tré um borð. Eftir þetta slóguðum við í eina 12 tíma og komum ekki til löndunar fyrr en í gær,“ segir Sturla.
Karl Jóhann Birgisson, rekstrarstjóri útgerðar Síldarvinnslunnar, segir að hárrétt viðbrögð áhafnarinnar hafi komið í veg fyrir að skemmdir um borð í skipinu hafi orðið verulegar. „Sjórinn sem komst í klefann dreifðist síðan um allan íbúðarganginn og fór inn í alla klefa. Áhöfnin náði fljótt að þurrka allt svæðið sem sjórinn komst á og þétta kýraugun sem brotnuðu þannig að komið var í veg fyrir að skemmdir yrðu töluverðar. Þegar skipið kom í höfn í gær var strax ráðist í viðgerðir á kýraugunum og lauk því verki um miðnætti,“ segir Karl Jóhann.
Beitir hélt til veiða á ný strax að löndun lokinni.