Beitir NK kom með 1.800 tonn af makríl til Neskaupstaðar í gær. Heimasíðan ræddi við Tómas Kárason skipstjóra og spurði fyrst í hve mörgum holum aflinn hefði fengist. „Við fengum þennan afla í sex holum. Minnsta holið gaf um 150 tonn en það stærsta tæp 500 tonn. Það var einfaldlega gífurlega góð veiði. Síðasta daginn tókum við þrjú hol og þau gáfu 480, 450 og 400 tonn. Öll þessi hol voru stutt, einungis dregið í tvo til tvo og hálfan tíma. Það kvartar enginn þegar veiðin er svona. Núna er hins vegar komin bræla á miðunum í Smugunni og útlit fyrir brælu alveg fram á fimmtudag. Það er víst komið haust með öllu sem því fylgir. Núna er maður bara farinn að hugsa um síld. Mér líst afar vel á síldarvertíð og það virðist vera nóg af henni. Færeyska skipið Finnur fríði fékk til dæmis 1.600 tonn af 460 gr síld við Kolbeinsey á dögunum. Þetta var semsagt sannkölluð stórsíld og svona fréttir fá mann til að hyggja að síldinni. Um makrílvertíðina verður að segja að hún hafi gengið afar vel þrátt fyrir að langt hafi verið að sækja makrílinn. Samstarf Síldarvinnsluskipanna um veiðarnar hefur skipt miklu máli og skilað ótvíræðum árangri. Ég held að allir séu afar ánægðir með samstarfið og það sé í reynd forsendan fyrir því hve vertíðin heppnaðist vel,“ segir Tómas.