Beitir NK kom til Neskaupstaðar í gær með 700 tonn af makríl og er gert ráð fyrir að um sé að ræða síðasta makrílfarminn sem berst til vinnslu í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar á þessari vertíð. Heimasíðan ræddi við Sigurð Valgeir Jóhannesson skipstjóra og spurði hvernig veiðiferðin hefði gengið. „Við byrjuðum á að leita í íslenskri lögsögu en urðum varla varir. Síðan var haldið í Smuguna og þar fengum við þessi 700 tonn í fimm holum á þremur dögum. Það var afskaplega lítil veiði í myrkrinu en mun betri á daginn. Á landleiðinni leituðum við aftur í íslensku lögsögunni og þá urðum við varir við makríl. Við toguðum þarna en fengum einungis nokkur tonn. Fiskurnn sem þarna fékkst var hins vegar stór og fallegur. Ég mundi segja að þessi makrílvertíð hafi gengið vel og það er ljóst að fiskurinn er enn á ferðinni hér norður í höfum. Næst á dagskránni hjá okkur er síldveiði og á landleiðinni sáum við afar góða síldartorfu á Héraðsflóanum. Ég held að mönnum lítist bara vel á að fara að snúa sér að síldinni,“ segir Sigurður Valgeir.