Landað úr Beiti NK í dag. Ljósm. Hákon ViðarssonBeitir NK kom í gær til Neskaupstaðar með 1150 tonn af íslenskri sumargotssíld sem fékkst utarlega í Kolluálnum vestur af landinu. Að sögn Tómasar Kárasonar skipstjóra fékkst aflinn í fimm holum og var skipið um 50 klukkutíma að veiðum. „Við vorum heldur sunnar en í síðasta túr,“ sagði Tómas,“og það var misjafnlega mikið að sjá þarna. Þetta var mun lélegra en í síðasta túr og við þurftum að leita töluvert. Nú skilst mér að verið sé að leita að síld inni á Breiðafirði en ef marka má orð smábátasjómanna þarna þá er heldur ólíklegt að eitthvað finnist þar. Það mun vera heldur lítið líf í firðinum; lítill fiskur og lítið fuglalíf en síldinni fylgir almennt mikið líf eins og menn vita,“ sagði Tómas. Gert er ráð fyrir að lokið verði við að landa úr Beiti í nótt.

Börkur NK er að síldveiðum fyrir vestan og er kominn með 500 tonn. Þegar haft var samband við Sturlu Þórðarson skipstjóra í morgun sagði hann að lítið væri um að vera. „Það var bræla í gær, ekkert fannst í nótt og við vorum að kasta núna á einhverja peðru. Héðan er því ansi lítið að frétta ,“ sagði Sturla.