Beitir NK siglir inn Norðfjörð í morgun með 3.100 tonn af kolmunna. Ljósm. Smári Geirsson.
Beitir NK kom til Neskaupstaðar í morgun með 3.100 tonn af kolmunna sem fékkst austur af Færeyjum. Heimasíðan ræddi við Sturlu Þórðarson skipstjóra og spurði hvort mikið af fiski væri að sjá á veiðisvæðinu. „Það eru einhverjar breiður þarna en það var enginn svakalegur kraftur í veiðunum. Við vorum átta daga að veiðum og fengum aflann í átta eða níu holum. Mest fengum við 480-490 tonn í holi en yfirleitt var lengi dregið. Við drógum upp í 22 tíma. Venjulega var kastað seinni part dags og híft morguninn eftir. Stærsti plúsinn við túrinn var veðrið, en það var blíða hvern einasta dag. Fiskurinn er að ganga í austur og undir lokin vorum við komnir alveg að ensku línunni,“ segir Sturla.
Beitir hefur alloft áður komið með kolmunnafarma að landi sem hafa verið yfir 3.000 tonn en ekkert annað íslenskt fiskiskip hefur komið með svo mikinn afla að landi í veiðiferð. Mestum afla í einni veiðiferð hjá skipinu var landað 20. apríl sl., 3.212 tonnum.