Beitir NK í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ViðarssonBeitir er á leið til Neskaupstaðar með 1050 tonn af íslenskri sumargotssíld sem fékkst á Flákanum um 40 mílur vestur af Öndverðarnesi. Heimasíðan hafði samband við Tómas Kárason skipstjóra um klukkan tvö í dag en þá var skipið statt við Tvísker í algeru blíðuveðri. Tómas var mjög ánægður með þessa fyrstu veiðiferð vestur fyrir land og taldi fulla ástæðu til bjartsýni hvað varðaði áframhaldandi veiðar. „Við komum á miðin á laugardagsmorgun og vorum lagðir af stað austur rúmum sólarhring síðar þannig að það er engin ástæða til að kvarta,“ sagði Tómas. „Aflinn fékkst í fjórum holum og var talsvert af síld að sjá á meðan við vorum á miðunum. Holin voru stutt; í einu þeirra fengust 320 tonn eftir að togað hafði verið í tvo tíma og tuttugu mínútur og í öðru fengust 370 tonn eftir tvo og hálfan tíma. Síldin sem þarna um ræðir er hin fallegasta og ætti að henta vel til vinnslu“, sagði Tómas að lokum.

Yfirleitt hafa Síldarvinnsluskipin veitt íslenska sumargotssíld í nót inni á Breiðarfirði á seinni árum en nú hefur engin síld fundist þar.

Börkur er kominn vestur og er við veiðar á Flákanum.