Í tilefni af því að Síldarvinnslan verður 60 ára hinn 11. desember nk. munu birtast pistlar um sögu fyrirtækisins á heimasíðunni af og til út árið. Hér verður fjallað um Beiti NK sem Síldarvinnslan festi kaup á árið 1981.
 
Vorið 1981 hófust umræður um að Síldarvinnslan festi kaup á nótaveiðiskipinu Óla Óskars RE. Á þessum tíma voru erfiðleikar í rekstri Síldarvinnslunnar og voru kaupin háð því að lánastofnanir samþykktu þau. Óli Óskars var smíðaður í Vestur-Þýskalandi árið 1958 og hét upphaflega Þormóður goði. Hann var í fyrstu síðutogari en var breytt í nótaskip árið 1978. Þá var skipið yfirbyggt og sett í það ný 2.640 hestafla vél. Skipið var 766 brúttólestir að stærð og gat borið um 1.300 tonn af loðnu.
 
Beitir NK eins og hann leit út þegar Síldarvinnslan festi kaup á honum árið 1981. Ljósm. Guðmundur SveinssonBeitir NK eins og hann leit út þegar Síldarvinnslan
festi kaup á honum árið 1981. Ljósm. Guðmundur Sveinsson
Mörgum kom það spánskt fyrir sjónir að Síldarvinnslan væri að kaupa nótaveiðiskip en fyrir átti fyrirtækið nótaveiðiskipið Börk NK. Loðnuveiðar höfðu verið takmarkaðar á þessum tíma og spáðu ýmsir loðnuveiðibanni. En ákveðin rök voru fyrir kaupunum. Síldarvinnslan átti afkastamikla loðnuverksmiðju sem fékk ekki nægjanlegt hráefni til vinnslu og fyrir afkomu hennar var afar mikilvægt að auka hráefnisöflunina. Þá var talið nauðsynlegt að Síldarvinnslan ætti sjálf uppsjávarveiðiskip sem öfluðu verksmiðjunni hráefnis vegna þess að samkeppni um hráefni var hörð og leiddi hún til yfirborgunar á því. Einnig töldu menn að drjúgan hluta loðnuvertíðar væri ekki unnt að treysta á að önnur skip sigldu með hráefnið austur. Loks ríkti bjartsýni um kolmunnaveiðar austur af landinu á þessum tíma og myndi nýtt nótaveiðiskip einnig leggja stund á slíkar veiðar.
 
Ein rökin fyrir kaupum á umræddu skipi voru þau að nauðsynlegt væri að efla atvinnulífið í Neskaupstað og skjóta undir það fleiri stoðum. Bent var á að með tilkomu skipsins yrði starfstími loðnuverksmiðjunnar lengri og atvinna og tekjur meiri auk þess sem sjómenn fengju góð pláss. Forsvarsmenn Síldarvinnslunnar horfðust í augu við að líklega yrði skipið rekið með tapi en á móti kæmi betri afkoma hjá loðnuverksmiðjunni.
 
Skemmst frá að segja gengu kaupin eftir og kom skipið í fyrsta sinn til nýrrar heimahafnar í Neskaupstað hinn 27. maí árið 1981. Fékk það nafnið Beitir NK og voru við það bundnar miklar vonir. Skipstjóri var Sigurjón Valdimarsson.
 
Segja má að útgerð Beitis í upphafi hafi ekki gengið áfallalaust fyrir sig. Kolmunnaveiðin árið 1981 gekk ekki vel og veiðar á sumar- og haustvertíð á loðnu voru stöðvaðar vegna lélegs ástands á loðnustofninum. Vegna þessarar stöðu ákvað stjórn Síldarvinnslunnar að láta gera ýmsar breytingar á Beiti svo skipið nýttist betur. Því var siglt til Akureyrar um miðjan marsmánuð 1982 og þar voru breytingarnar framkvæmdar í Slippstöðinni. Á skipið var sett skutrenna og skutrennuloki, útbúin aðstaða til aðgerðar á millidekki stjórnborðsmegin og þar komið fyrir hausingavél og flatningsvél enda var gert ráð fyrir að skipið færi á bolfiskveiðar og saltaði aflann um borð. Einnig var komið fyrir 10 tonna krana til að tæma úr poka og til annarra verka á efra þilfari. Þá var komið fyrir autotrolli við togvindur ásamt grandara- og gilsaspilum og reyndar ýmsum öðrum nýjum búnaði. Eftir þessar breytingar gat Beitir lagt stund á nótaveiðar og einnig veiðar með flotvörpu og botnvörpu og því mátti segja að hann væri orðinn einskonar fjölveiðiskip.
 
Beitir NK með fullfermi af loðnu árið 1998. Ljósm. Snorri SnorrasonBeitir NK með fullfermi af loðnu árið 1998.
Ljósm. Snorri Snorrason
Á næstu árum var Beitir ýmist á bolfiskveiðum eða veiðum á uppsjávartegundum og þurfti ávallt að gera töluverðar breytingar um borð á milli vertíða enda fóru gárungarnir að kalla skipið „Breyti“. Beitir veiddi um tíma rækju í ís og eins var gerð tilraun til að frysta rækju um borð. Þá var komið fyrir búnaði til að heilfrysta afla um borð og í kjölfar þess lagði Beitir stund á grálúðu- og karfaveiðar auk þess að veiða loðnu. Einnig var gerð skammvinn tilraun til að flaka aflann um borð og frysta flökin.
 
Á árinu 1995 fóru fram gagngerar endurbætur á Beiti í Póllandi. Ný brú var sett á skipið, fullkomnum útbúnaði til flotvörpuveiða komið fyrir og sett upp kerfi í lestum til kælingar á afla. Í kjölfarið á þessum breytingum ruddi Beitir brautina fyrir veiðar á loðnu í flotvörpu og eins hóf hann kolmunnaveiðar í verulegum mæli en slíkar veiðar höfðu ekki verið stundaðar við Ísland frá árinu 1982.
 
Eftir töluverða erfiðleika í byrjun var Beitir hið mesta happaskip og reyndist Síldarvinnslunni afar vel. Athyglisvert er hve oft þurfti að breyta skipinu og laga það að nýjum aðstæðum. Beitir var seldur til niðurrifs árið 2007 en margir eiga ljúfar minningar sem tengjast skipinu.