Beitir NK tekur veiðarfærin áður en haldið var til makrílveiða. Ljósm: Smári Geirsson
Beitir NK hélt til makrílveiða í gærkvöldi. Hann hóf síðan veiðar vestan við Þórsbankann í morgun. „Við erum dálítið sunnar og austar en bátarnir sem hafa verið á þessum slóðum. Hér eru smá lóðningar en við eigum eftir að sjá hvað kemur út úr þessu,“ sagði Tómas Kárason skipstjóri á Beiti skömmu fyrir hádegi. Að sögn Tómasar er hálfgerð bræla á miðunum og spáð leiðinda kalda í dag.
Jón Gunnar Sigurjónsson yfirverkstjóri í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað segir að þar sé allt klárt til að hefja vinnslu en ráðnir hafa verið um 50 starfsmenn á vaktir á vertíðinni. „Hér bíða menn spenntir eftir að fá fyrsta farminn til vinnslu og við vonumst til að Beitir komi með hann á sunnudag. Það er mikið um að vera í fiskiðjuverinu en unnið er að því að koma upp búnaði til að auka afköst þess mikið og sú vinna mun halda áfram þrátt fyrir að vinnsla hefjist fyrir fullri alvöru,“ sagði Jón Gunnar.