Beitir NK landar í fiskimjölsverksmiðjuna í Neskaupstað. Ljósm: Hákon Ernuson

Beitir NK kom til Neskaupstaðar í morgun með 2170 tonn eða nánast fullfermi af kolmunna sem fékkst í færeysku lögsögunni. Að sögn Hálfdanar Hálfdanarsonar skipstjóra fékkst aflinn í 8 holum. „Veiðin var þokkaleg en veður truflaði þær verulega,“ sagði Hálfdan. „Við gátum til dæmis ekkert verið að samfellt í eina tvo sólarhringa vegna brælu. Veiðisvæðið var syðst í færeysku lögsögunni, alveg við skosku línuna.“
 
Beitir hefur nú farið tvo kolmunnatúra í færeysku lögsöguna eftir áramótin og er aflinn samtals um 3300 tonn.  Ráðgert er að Beitir haldi til loðnuveiða að lokinni löndun.