Frá Þvereyri á Suðurey í FæreyjumKolmunnaskipin Beitir og Börkur liggja nú í höfn á Þvereyri á Suðurey í Færeyjum. Engin kolmunnaveiðiveiði sem heitið getur hefur að undanförnu verið innan færeyskrar lögsögu þar sem íslenskum skipum er heimilt að veiða. Beitir og Börkur héldu til veiða frá Neskaupstað sl. föstudag en hafa legið í höfn frá því að þeir komu til Færeyja. Önnur íslensk skip liggja ýmist í höfn eða eru úti að fylgjast með en láta reka að mestu. Heimasíðan sló á þráðinn til Hálfdans Hálfdanarsonar skipstjóra á Beiti og heyrði í honum hljóðið:“Við liggjum hér í höfn og það fer vel um mannskapinn, hér er sólskin og blíða en því miður lítið að frétta af fiskiríi“, sagði Hálfdan.  „ Við bíðum rólegir eftir því að fiskurinn gangi inn í færeysku lögsöguna. Færeysku skipin eru að mokfiska í skosku landhelginni hér suður af en þau hafa heimild til að veiða þar. Á undanförnum árum hefur verið nokkuð misjafnt hvenær kolmunninn hefur látið sjá sig í miklu magni í færeyskri lögsögu. Í fyrra og hitteðfyrra var komin góð veiði um 10. apríl en stundum hefur þetta gerst síðar. Það skiptir hins vegar máli að bíða hérna því einungis 12 íslensk skip mega veiða samtímis í færeyskri lögsögu og því koma menn hér til að ná sér í númer svo unnt sé að hefja veiðar strax og fiskurinn sýnir sig. Við erðum bara að bíða þolinmóðir, það er ekkert annað í stöðunni“.