Síldarvinnsluskipin Beitir og Börkur héldu til loðnuveiða í gær. Veðrið hefur verið heldur óhagstætt á miðunum en í morgun hafði það heldur gengið niður. Heimasíðan ræddi við Tómas Kárason skipstjóra á Beiti. „Við erum á Meðallandsbugtinni og það er víða eitthvað að sjá. Við erum að skoða þetta núna. Hér er heldur leiðinleg sunnanátt en það er vel hægt að kasta þannig að veðrið háir okkur ekki“, segir Tómas.
Samkomulag hefur verið gert við áhafnir Beitis og Barkar um samstarf skipanna við loðnuveiðarnar. Samstarfið felst í því að skipin skipuleggi veiðarnar þannig að þau skiptist á að koma með sem ferskastan afla að landi hverju sinni til að tryggja sem mest gæði framleiðslunnar. Þess vegna er gert ráð fyrir að afla verði dælt á milli skipanna á miðunum ef á þarf að halda. Áhafnirnar munu síðan skipta aflaverðmætunum á milli sín. Samstarf sem þetta hefur ekki verið reynt við loðnuveiðar áður en það gafst vel hjá Síldarvinnsluskipunum á makrílvertíðinni sl. sumar.