Börkur NK og Beitir NK voru að fá 400-500 tonn af kolmunna í hverju holi. Ljósm. Helgi Freyr Ólason

Börkur NK kom til heimahafnar í Neskaupstað í gærkvöldi með um 2.100 tonn af kolmunna og Beitir NK kom í morgun með jafnmikinn afla. Skipin voru að veiðum suðaustur af Færeyjum við miðlínu á milli Færeyja og Shetlands. Heimasíðan ræddi við Hálfdan Hálfdanarson, skipstjóra á Berki, og spurði fyrst hvernig hefði gengið að sækja aflann. „Þarna var fínasta fiskirí og gott veður nánast allan tímann. Við og Beitir máttum taka um 2.100 tonn hvort skip, en það var það sem eftir var af kvótanum. Við fengum aflann í fimm holum og það voru 400 – 500 tonn í hverju holi. Þarna var töluvert að sjá en við vorum bara tveir bátar þarna og alltaf á sama blettinum,“ segir Hálfdan.

Sturla Þórðarson, skipstjóri á Beiti, tekur undir með Hálfdani og segir að vel hafi gengið að ná aflanum. „Þetta voru fimm hol hjá okkur og þarna fékkst ágætis fiskur,“ segir Sturla.