Beitir NK hélt til loðnuleitar frá Neskaupstað í gær. Hafrannsóknaskipin Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson héldu til leitar sl. mánudag og er gert ráð fyrir að leitarverkefnið taki um tíu daga. Beitir er eina veiðiskipið sem tekur þátt í leitinni og spurði heimasíðan Sturlu Þórðarson skipstjóra hvað skipinu væri ætlað að gera. „Okkur er ætlað að leita á svæðinu frá Glettinganesi og norður að Melrakkasléttu. Það er þegar búið að ákveða leitarleggina sem við eigum að fara. Þeir eru samtals um 360 mílur. Við ættum að ljúka við okkar verkefni á morgun, föstudag,“ segir Sturla.
Þessi loðnuleit er að frumkvæði útgerða uppsjávarskipa og kosta þær leitina að öllu leyti. Niðurstaða loðnumælinga, sem fram fóru í september sl., olli vonbrigðum og er vonast til að leitin nú leiði til endurskoðunar á þeirri veiðiráðgjöf sem gefin var út í kjölfarið. Veiðiráðgjöfin fól í sér að ekki yrði veitt meira en 218 þúsund tonn við landið á komandi vertíð og þar af myndu íslenskar útgerðir fá um 134 þúsund tonn í sinn hlut.