Á goslokahátíð í Vestmannaeyjum, um helgina var nýju togurum Berg-Hugins, Bergey og Vestmanney formlega gefið nafn eins og hefð er fyrir þegar tekið er við nýjum skipum. Athöfnin fór fram á bryggjunni í blíðu veðri og að lokinni athöfn gátu Eyjamenn skoðað þessi glæsilegu skip. Mikil kátína var meðal mannskapsins og vonast menn til að skipin reynist happafley líkt og þau eldri voru.
Í upphafi hélt Gunnþór Ingvason tölu og þakkaði áhöfnum og öllum starfsmönnum sem komu að smíði skipanna. Gunnþór lýsti ferlinu við hönnun og smíði skipanna og hafði þetta að segja um fyrstu rekstrarmánuðina:
„Það er ekki þrautarlaust að taka svona skip í notkun, en þar hefur reynt á þrautseigju, útsjónarsemi og reynslu áhafna að leysa úr málum. Hafa þeir gert það með sóma og eiga miklar þakkir skyldar fyrir þolinmæðina því ýmislegt hefur komið uppá á þessum fyrstu mánuðum sem hefur þurft að leysa úr.“ Í máli Gunnþórs kom ennfremur fram að um væri að ræða mikla fjárfestingu, til að slíkt gangi upp þurfi gott starfsfólk, sterk samfélög og stöðuleika í starfsumhverfi greinarinnar.
Séra Guðmundur Örn Jónsson blessaði skipin, áhafnirnar og afhenti jafnframt skipstjórunum, Birgi Þór Sverrissyni og Jóni Valgeirssyni sjóferðarbæn sr. Odds V. Gíslasonar á platta sem var komið fyrir í skipunum eins og hefð er fyrir í Vestmannaeyjum. Gísli Jóhannes Óskarsson færði skipstjórunum nýja testamentið að gjöf frá Gideon félaginu. Þær mæðgur Lóa Skarphéðinsdóttir og Elfa Ágústa Magnúsdóttir gáfu síðan skipunum nöfn með því að brjóta kampavíns flösku á stafni skipsins eins og venjan er. Það var við hæfi að þær mæðgur gæfu skipunum nöfn en síðast voru það þær Lóa og amma Elfu sem voru í þessu hlutverki. Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri færði skipstjórunum blómvönd og færði Eyjamönnum hamingjuóskir með þessi nýju skip.
Heimasíðan setti sig í samband við Arnar Richardsson og spurði út í dagskrána og skipin
„Við vorum mjög heppinn með veður og litaðist athöfnin af mikill gleði. Skipin eru hin glæsilegustu og finn ég að Eyjamenn eru stoltir af þessum nýju skipum. Markmiðið var að gera aðbúnað og vinnuaðstæður starfsmanna betri, ásamt meðhöndlun á fiskinum. Það hefur heppnast og mannskapurinn er ánægður með skipinn. Veiðin á skipunum hefur gengið mjög vel á árinu og skipin hafa sýnt það að þetta eru vel heppnuð skip. Markaðir hafa verið aðeins erfiðir vegna kórónuveirunnar og vegna þess höfum við ekki veitt jafn kröftuglega og við gætum. Ég er bjartsýn á framhaldið, júní gekk vel hjá báðum skipum og var sérstaklega góð veiði í ýsu“.