Bergey VE hélt til veiða að loknu kórónuveirustoppi um miðnætti á sunnudag en þá hafði skipið verið frá veiðum í vikutíma. Alls smituðust sex menn úr áhöfn skipsins og þeir síðustu úr þeim hópi munu væntanlega ekki geta hafið störf á ný fyrr en á sunnudag. Bergey sigldi strax austur fyrir land og mun væntanlega landa í Neskaupstað á fimmtudag að sögn Arnars Richardssonar, rekstrarstjóra Bergs-Hugins. Arnar segir að menn séu afar ánægðir með að þessu stoppi skuli vera lokið. „Nú vona menn bara að það fiskist vel og þá verður allt í himnalagi á ný,“ segir Arnar.