Bergey VE í slipp í Vestmannaeyjum. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonBergey VE í slipp í Vestmannaeyjum. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonAf skipum Bergs-Hugins ehf. í  Vestmannaeyjum er það að frétta  að Bergey VE er þar í slipp þessa dagana. Verið er að setja tvö ný botnstykki undir skipið fyrir mæla frá Marport og síðan verður sinnt hefðbundnu viðhaldi. Treyst var á að maímánuður yrði frekar þurr þannig að vel gengi að mála skipið en það hefur ekki gengið eftir. Vonandi eiga þó eftir að koma þurrir og hagstæðir málningadagar á næstunni.
 
Á meðan Bergey er í slipp hefur Vestmannaey VE verið að fiska. Aflabrögð hafa verið þokkalega góð og kemur skipið til löndunar í dag. Þá hefur það landað þrisvar á um það bil einni viku og er heildaraflinn úr þessum þremur túrum tæp 400 kör, en um 400 kg. eru í hverju kari. Þessi afli samanstendur af ýmsum tegundum t.d. 55 körum af lýsu, 55 körum af löngu og 55 körum af sólkola auk þorsks, ýsu og karfa. Af þessum afla fara fimm gámar, eða tæplega helmingur aflans, á markað í Englandi og Þýskalandi en annað er unnið hjá Nöf í Vestmannaeyjum.