Ísfisktogarinn Bergey kemur til löndunar í Vestmannaeyjum í síðasta sinn undir því nafni. Ljósm. Arnar Richardsson

Ísfisktogararnir Bergey VE og Vestmannaey VE hafa verið að fiska vel að undanförnu. Þeir lönduðu báðir fullfermi sl. sunnudag, Bergey var aðallega með karfa og þorsk en Vestmannaey með þorsk, ufsa og ýsu. Vestmannaey landaði á ný í gær og þá var aflinn mestmegnis karfi og þorskur.

Að lokinni löndun á sunnudaginn var Bergey undirbúin fyrir slipptöku og nú er skipið komið í slipp í Reykjavík. Sinnt verður ýmsu viðhaldi í slippnum og skipið málað hátt og lágt. Að auki mun skipið fá nýtt nafn. Mun það fá nafnið Bergur og einkennisstafina VE 44. Bergur ehf. er dótturfélag Síldarvinnslunnar rétt eins og Bergur – Huginn sem gerir út Vestmannaey. Þrátt fyrir þessa breytingu verður stjórn útgerðar skipanna áfram sameiginleg.

Síldarvinnslan festi kaup á útgerðarfélaginu Bergi ehf. í Vestmannaeyjum í gegnum dótturfélag sitt, Berg – Hugin ehf., í októbermánuði árið 2020. Um var að ræða kaup á aflaheimildum og togskipinu Bergi VE. Togarinn var síðan seldur Vísi í Grindavík án aflaheimilda í ágúst 2021 og í kjölfar sölunnar festi Bergur ehf. kaup á Bergey VE sem hafði verið í eigu Bergs – Hugins. Nú verða þau kaup staðfest þegar nafni Bergeyjar verður breytt.

Bergey VE tekin í slipp í Reykjavík. Ljósm. Guðmundur Alfreðsson