Ísfisktogarinn Bergur VE kom til Neskaupstaðar síðdegis í gær með fullfermi. Aflinn var mest ýsa en einnig nokkuð af þorski. Heimasíðan ræddi við Ragnar Waage Pálmason skipstjóra og spurði fyrst hvar hefði verið veitt. „Við byrjuðum á að taka þrjú hol á Lónsbugtinni en síðan vorum við allan tímann á Breiðdalsgrunni og Gula teppinu. Það gekk vel að veiða ýsuna yfir daginn en það var rólegt á nóttunni. Þegar skyggja tekur virðist ýsan leita upp í sjó. Þegar við fórum út var bölvuð bræla og það var leiðindasjór í kjölfar hennar. Eftir það var fínasta veður og staðreyndin er sú að það er ekki hægt að kvarta undan veðrinu í haust. Menn reikna með að veiða áfram hérna fyrir austan en nú er ráðgert að taka einungis einn túr í viku. Vegna ástandsins í Grindavík er hægt á öllu hjá okkur. Það er ekki gert ráð fyrir að við höldum til veiða á ný fyrr en á fimmtudag,“ segir Ragnar Waage.