Bergur VE og Vestmannaey VE í Norðfjarðarhöfn í gær.
Ljósm. Andri Gunnar Axelsson

Bæði Bergur VE og Vestmannaey VE komu til Neskaupstaðar í gær. Bergur kom vegna smávægilegrar bilunar en Vestmannaey til löndunar. Heimasíðan ræddi við Birgi Þór Sverrisson skipstjóra á Vestmannaey og spurði fyrst hvar hefði verið veitt. „Við vorum að veiðum á Tangaflakinu og Glettinganesflakinu, bæði innarlega og utarlega. Það var bara ágætis veiði á þessum slóðum og við fengum rúmlega 60 tonn af slægðum fiski á rúmlega 40 tímum. Þetta er mest þorskur og ýsa og fínasti fiskur. Þá er ekki hægt að kvarta undan veðrinu en það var alger blíða allan túrinn, sannkölluð Austfjarðablíða,“ segir Birgir Þór.

Það gekk fljótt og vel að lagfæra bilunina í Bergi og héldu bæði skipin til veiða í gærkvöldi. Þau veiða nú í blíðunni.