Bergur VE landaði fullfermi í Vestmannaeyjum í gær.
Ljósm. Guðmundur Alfreðsson

Ísfisktogarinn Bergur VE landaði fullfermi í Vestmannaeyjum í gær. Hann hélt til veiða strax að löndun lokinni og ræddi heimasíðan við Ragnar Waage Pálmason skipstjóra í morgun en þá var skipið að veiðum á Sneiðinni. „Við lönduðum fullfermi í gær og var aflinn blandaður en mest þó af þorski og ýsu. Það var komið víða við í þessari veiðiferð. Við byrjuðum í Reynisdýpinu og á Vík, síðan var haldið á Síðugrunn og á Ingólfshöfðann. Við enduðum síðan á Öræfagrunni. Miðað við árstíma er ágætis nudd á þessum miðum en undanfarin ár höfum við venjulega verið búnir að færa okkur austur um þetta leyti. Nú sést hins vegar fiskur út af Suðurlandinu og því veiðum við áfram hér,“ segir Ragnar.

Vestmannaey VE landar fullfermi í Eyjum í dag. Aflinn er mest þorskur og ýsa. Heimasíðan ræddi við Egil Guðna Guðnason skipstjóra og spurði fyrst hvar veitt hefði verið. „Við byrjuðum túrinn á að leita að ufsa með afar litlum árangri. Leitað var á Síðugrunni, Öræfagrunni og Mýragrunni. Við fengum ýsu á Öræfagrunni og síðan þorsk á Ingólfshöfða og á Víkinni. Veiðiferðin gekk bara vel ef við strikum út ufsaleitina,“ segir Egill Guðni.

Vestmannaey mun halda til veiða á ný á morgun.