Vestmannaey VE að veiðum. Ljósm. Björn Steinbekk

Ísfisktogararnir Bergur VE og Vestmannaey VE lönduðu báðir í heimahöfn í Vestmannaeyjum í morgun. Afli Bergs var 68 tonn og afli Vestmannaeyjar 65 tonn. Heimasíðan ræddi stuttlega við skipstjórana að löndun lokinni. Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergi, segir að afli þeirra hafi mest verið þorskur og ufsi. „Við vorum að veiðum á Ingólfshöfða og á Breiðamerkurdýpi og það er ekki hægt að vera ósáttur við aflabrögðin. Þetta var fínasti fiskur sem við vorum með,“ segir Jón.

Egill Guðni Guðnason, skipstjóri á Vestmannaey, segir að aflinn hafi mest verið þorskur og ýsa. „Við vorum að veiðum á Ingólfshöfða og Breiðamerkurdýpi og einnig í Sláturhúsinu. Það gekk þokkalega að fiska, þetta var bara fínasta nudd. Við vorum tæplega þrjá og hálfan sólarhring að veiðum. Nú er komin bræla og ég veit ekki hvenær verður haldið til veiða á ný. Vonandi gengur þetta veður fljótlega niður,“ segir Egill Guðni.