Vestmannaey VE kemur til löndunar í Eyjum.
Ljósm. Guðmundur Alfreðsson

Ísfisktogararnir Bergur VE og Vestmannaey VE lönduðu báðir í heimahöfn í Vestmannaeyjum í gær. Heimasíðan heyrði hljóðið í skipstjórunum þegar í land var komið. Ragnar Waage Pálmason, skipstjóri á Bergi, sagði að hjá þeim hefði í reynd allt gengið sinn vanagang. „Þetta var fínasti túr og allvíða veitt. Við byrjuðum á að taka þrjú hol á Glettinganesflakinu eftir löndun í Neskaupstað en síðan var keyrt suður á Ingólfshöfða og þar tekin tvö hol. Þá var haldið á Öræfagrunn og þar skimað eftir ýsu. Loks var skipið fyllt með tveimur holum á Ingólfshöfða. Þetta er fínasti fiskur sem við fengum og ekki er hægt að kvarta yfir veðrinu,“ segir Ragnar.

Egill Guðni Guðnason, skipstjóri á Vestmannaey, sagði að þeirra veiðiferð hefði verið örstutt. „Við fórum út til að leita að öðru en þorski og ýsu. Það er nauðsynlegt að gefa sér tíma til þess. Túrinn var örstuttur og aflinn var ufsi og karfi ásamt fleiri tegundum. Við vorum innan við sólarhring að veiðum að þessu sinni,“ segir Egill Guðni.

Gert er ráð fyrir að Vestmannaey haldi til veiða í nótt en Bergur ekki fyrr en á laugardagsmorgun.