Í októbermánuði sl. festi dótturfélag Síldarvinnslunnar, Bergur-Huginn ehf., kaup á útgerðarfélaginu Bergi ehf. í Vestmannaeyjum. Ísfisktogarinn Bergur VE var í eigu Bergs ehf. og fylgdi að sjálfsögðu með í kaupunum. Bergur VE var smíðaður hjá Karstensens Skibsværft í Skagen í Danmörku árið 1998 og er skipið 569 brúttótonn að stærð og með 1.300 hestafla vél. Tilgangurinn með kaupunum á Bergi ehf. var að styrkja starfsemina í Vestmannaeyjum.
Frá því í nóvember og til marsloka var togarinn Bergur leigður Útgerðarfélagi Akureyringa en sl. föstudagskvöld hélt skipið í fyrsta sinn til veiða undir merkjum Bergs ehf. eftir að Bergur-Huginn eignaðist það. Bergur kom síðan til löndunar í morgun og að því tilefni sló heimasíðan á þráðinn til Páls Steingrímssonar skipstjóra. Páll segir að þokkalega hafi gengið að fiska í túrnum en veður hafi verið til trafala. „Það var hreint út sagt ógurlega leiðinlegt veður í þessum túr en við vorum á Eldeyjarbanka allan tímann. Stór hluti af veiðislóðinni út af sunnan- og suðvestanverðu landinu hefur verið lokaður vegna hrygningarstopps en það verður opnað aftur á morgun sem betur fer. Við komum með fullfermi eða 60 tonn til löndunar og aflinn er mest ýsa en einnig ufsi, karfi og þorskur. Við reyndum að fá ufsa en hann er brellinn og erfitt að nálgast hann. Það koma ufsaskot hér og þar en þau standa gjarnan afar stutt. Hins vegar er allt fullt af ýsu og gullkarfa. Ýsan er allsstaðar og ég er hræddur um ýmsir lendi í vandræðum því úthlutaður ýsukvóti er alltof lítill miðað við magnið sem er á ferðinni,“ segir Páll.
Páll hefur víðtæka reynslu sem skipstjóri og hefur meðal annars stýrt skipum sem gerð hafa verið út til veiða í Barentshafi og við Austur-Grænland frá Þýskalandi, Bretlandi, Póllandi og Portúgal. Hann segir að það sé jákvætt að öðlast víðtæka reynslu og vissulega sé það talsvert annað að veiða á 500-600 tonna togara eins og Bergi og á stærri skipum, en stærsti togarinn sem hann hefur stýrt er um 8000 tonn að stærð. Páll segir að ráðgert sé að halda á ný til veiða strax að löndun lokinni.
Bæði skip Bergs-Hugins, Vestmannaey VE og Bergey VE, lönduðu fullfermi í Eyjum í gær en þau héldu til veiða sl. fimmtudag. Gert er ráð fyrir að þau haldi á ný til veiða nk. föstudag.