Gullver NS heldur til veiða. Ljósm. Ómar BogasonGullver NS heldur til veiða. Ljósm. Ómar Bogason Ísfisktogarinn Gullver NS kom til Seyðisfjarðar í morgun úr síðustu veiðiferð kvótaársins. Aflinn var 70 tonn, þar af um 40 tonn þorskur. Segja má að kvótaárið hafi reynst þeim Gullversmönnum afar farsælt. Afli skipsins á árinu er 5730 tonn og er það langmesti ársafli frá því að skipið hóf veiðar árið 1983. Alls er þorskafli ársins 3400 tonn, 730 tonn ýsa, tæp 700 tonn ufsi og um 650 tonn karfi. Afli Gullvers fer til vinnslu hjá fiskvinnslustöð Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði og hjá fiskvinnslustöðvum Samherja auk þess sem hluti aflans er seldur á fiskmörkuðum eða fluttur beint út.
 
Skipstjórar á Gullver eru þeir Rúnar L. Gunnarsson og Þórhallur Jónsson. Rúnar segir að afar vel hafi gengið að fiska á fiskveiðiárinu. „Almennt hefur afli verið góður allt árið og auðvitað skiptir máli að skipið er vel nýtt og kvóti nægur. Við höfum aðallega veitt á okkar hefðbundnu miðum úti fyrir Suðausturlandi, í Hvalbakshalli, Litladýpi og Berufjarðarálnum. Að auki fórum við fjóra eða fimm túra á Selvogsbanka. Ég held að allir um borð séu ánægðir með árangurinn,“ segir Rúnar.
 
Þórhallur Jónasson tekur undir með Rúnari. „Þetta fiskveiðiár hefur gengið einstaklega vel og reyndar betur en maður þorði að vona í upphafi. Við höfum ekki lent í neinum áföllum eins og biliríi eða slíku þannig að tíminn hefur nýst vel. Við höfum nánast alltaf getað sótt þann afla sem óskað hefur verið eftir og til dæmis hentað vinnslunni. Sannleikurinn er sá að kvótaárið hefur gengið eins og í sögu og það eru allir ánægðir með það,“ segir Þórhallur.