Dótturfélag Síldarvinnslunnar í Vestmannaeyjum, Bergur-Huginn, gerir út Vestmannaey VE og Bergey VE. Nú hafa skipin lokið veiðum í ár og eru áhafnirnar komnar í vel þegið jóla- og áramótafrí. Að venju endaði árið með heljarinnar skötuveislu sem fram fór í gærkvöldi og þar var skálað fyrir frábærum árangri á árinu.
Árið sem er að líða er besta árið í sögu Bergs-Hugins og því fullt tilefni til að fagna. Skipin hafa landað vel yfir tíu þúsund tonnum af slægðum fiski á árinu og er það mesti ársafli sem þau hafa fært að landi. Næst besta árið var í fyrra en þá var ársaflinn 8.500 tonn. Bergey lýkur árinu með 5.230 tonnum og Vestmannaey með 4.922 tonnum. Meðalafli á sóknardag var 21 tonn á árinu. Samhliða hinum mikla afla hefur aflaverðmæti skipanna aldrei verið meira eða um 2,4 milljarðar króna.
Vestmannaey kom ný til landsins í marsmánuði 2007 og á árinu fór heildaraflaverðmæti skipsins yfir 10 milljarða. Bergey hóf veiðar fimm mánuðum síðar og mun hún rjúfa 10 milljarða múrinn fljótlega á nýju ári. Skipin hafa reynst afburða vel alla tíð og frá komu þeirra hafa þau veitt yfir 80.000 tonn af slægðum fiski og skilað 20 milljörðum króna í aflaverðmæti.
Um mitt næsta ár munu ný skip leysa núverandi Vestmannaey og Bergey af hólmi. Skipin eru í smíðum hjá Vard skipasmíðastöðinni í Aukra í Noregi.