Frá loðnumiðunum suður af landinu. Beitir NK er fremst á myndinni að kasta. Ljósm. Björn Steinbekk

Loðnuvertíðin, sem nú er nýlokið, er einhver hin besta í langan tíma. Það hjálpaðist allt að til að gera vertíðina góða; það aflaðist vel allan vertíðartímann, veður truflaði nánast aldrei veiðarnar og loðnan sem fékkst var einstaklega stór og falleg og hentug til vinnslu. Álitið er að loðnuvertíðin geti skilað yfir 40 milljörðum króna og munar um minna fyrir þjóðarbúið.

Hér á eftir verður gerð grein fyrir loðnuvertíðinni hjá Síldarvinnslunni en frammistaða starfsfólks, bæði til sjós og lands, var með miklum ágætum á þessum mikla annatíma.

Veiðarnar

Þrjú Síldarvinnsluskipanna, Beitir NK, Börkur NK og Barði NK, hófu veiðarnar í upphafi vertíðar. Þegar síðan var bætt við kvótann seint í febrúarmánuði var Bjarni Ólafsson AK einnig sendur til veiða. Öll skipin öfluðu vel á vertíðinni og var síðustu förmunum landað helgina 26. – 27. mars. Afli hvers skips var sem hér segir:

  • Beitir 20.048 tonn
  • Börkur 19.384 tonn
  • Barði 12.875 tonn
  • Bjarni Ólafsson 8.245 tonn

Fyrir utan Síldarvinnsluskipin lögðu fleiri loðnuskip upp drjúgan hluta afla síns hjá Síldarvinnslunni og má þar helst nefna Vilhelm Þorsteinsson EA, Hákon EA og grænlensku skipin Polar Amaroq og Polar Ammassak.

Manneldisvinnsla

Í fiskiðjuverinu í Neskaupstað voru framleidd 17.520 tonn af frosnum afurðum á vertíðinni. Loðnufrysting hófst 21. janúar og lauk 26. febrúar. Hrognavinnsla hófst 5. mars og stóð yfir nánast samfellt allt til vertíðarloka 26. mars.

Hráefnið sem barst til fiskiðjuversins var afar gott og gekk framleiðslan eins og í sögu. Aldrei hefur meira verið unnið af loðnu og loðnuhrognum í fiskiðjuverinu.

Mjöl- og lýsisframleiðsla

Vel gekk að framleiða mjöl og lýsi í fiskimjölsverksmiðjum Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og á Seyðisfirði á loðnuvertíðinni. Hrósa verksmiðjustjórarnir hráefninu og telja að afurðirnar séu með besta móti.

Verksmiðjan á Seyðisfirði tók á móti 31. 600 tonnum á vertíðinni og verksmiðjan í Neskaupstað tók á móti 53.600 tonnum. Alls komu tæp 30.000 tonn til verksmiðjunnar í Neskaupstað frá hrognavinnslunni.

Einmuna veðurblíða á vertíðinni

Loðnusjómennirnir tala um að nýliðin vertíð hafi einkennst af mikilli veðurblíðu og það sé ekki síst ástæðan fyrir því hve veiðarnar gengu vel. Segja má að mörg skipanna hafi nánast ekki misst úr

veiðidag alla vertíðina og hlýtur það að teljast einstakt. Áhafnir skipanna fengu frí í nokkra daga að lokinni loðnuvertíðinni en síðan var haldið til kolmunnaveiða í færeyskri lögsögu um og eftir páskana.