Ísfisktogarinn Gullver NS kom til Seyðisfjarðar sl. sunnudag með fullfermi eða rúmlega 107 tonn eftir fjóra daga á veiðum. Aflinn fékkst frá Skeiðarárdýpi og austur á Fót og var hann mjög blandaður; ufsi, þorskur, gullkarfi og djúpkarfi. Að sögn Rúnars L. Gunnarssonar skipstjóra eru menn ánægðir með aflabrögðin upp á síðkastið og gera sér vonir um að áframhald verði á þeim.
Þegar rýnt er í aflatölur og verðmæti Gullvers í maímánuði kemur í ljós að aflinn hefur verið afar góður eða samtals um 770 tonn og aflaverðmæti um 175 milljónir króna, en það eru án efa mestu verðmæti í einum mánuði í sögu skipsins. Alls landaði Gullver sjö sinnum í maí.
Gert er ráð fyir að Gullver fari í slipp í lok júnímánaðar eða að afloknum þremur næstu veiðiferðum.