Makríl landað úr Vilhelm Þorsteinssyni EA í Neskaupstað. Ljósm. Smári Geirsson

Makrílskipin í Síldarsmugunni hafa verið að fá góðan afla síðustu dagana en þó var veiðin ekki eins góð í gær og verið hefur. Vilhelm Þorsteinsson EA kom með 1.560 tonn til Neskaupstaðar á miðvikudagskvöld og verið er að vinna úr honum. Börkur NK landar í Kollafirði í Færeyjum en hann er með 1.175 tonn. Bjarni Ólafsson AK lagði af stað í land í gær með 1.150 tonn. Beitir NK og Börkur II NK eru á miðunum. Heimasíðan heyrði hljóðið í Hálfdani Hálfdanarsyni, skipstjóra á Berki, í gær. „Það hefur verið ágætis veiði síðustu daga. Það veiðist best á morgnana og fram á daginn en það er minna yfir nóttina. Holin, sem við tókum í túrnum, voru stutt. Síðasta holið var til dæmis einn og hálfur tími. Þetta er þokkalegur fiskur sem fékkst en hann var þó heldur smærri undir lokin. Nú veiðist það vel að öll skipin fimm sem landa hjá Síldarvinnslunni komast ekki að í Neskaupstað og því fórum við til Færeyja að þessu sinni,“ segir Hálfdan.

Heimasíðan sló einnig á þráðinn til Runólfs Runólfssonar, skipstjóra á Bjarna Ólafssyni, og spurði hvort væri ekki allt gott að frétta. „Jú, það má segja það. Það hefur verið góð veiði á morgnana að undanförnu en sáralítið yfir nóttina. Við erum á landleið með rúm 1.100 tonn. Þetta er mest okkar eigin afli en við fengum 180 tonn hjá Beiti. Aflann fengum við í þremur holum og það var togað stutt. Stærsta holið fengum við í fyrradag og var það 500 tonn. Þetta lítur allt saman mun betur út en áður,“ segir Runólfur.