Guðni Hjörleifsson að störfum í bílskúrnum heima hjá sér. Ljósm.: Rósa SveinsdóttirGuðni Hjörleifsson að störfum í bílskúrnum heima hjá sér. Ljósm. Rósa SveinsdóttirAð undanförnu hefur Covid-19 herjað á íbúa Vestmannaeyja í ríkari mæli en á flesta aðra. Fyrirtæki í bænum hafa að sjálfsögðu gripið til ráðstafana til að minnka líkur á að starfsemi þeirra stöðvist og þar er útgerðarfélagið Bergur-Huginn engin undantekning. Hjá félaginu starfa til dæmis tveir netamenn og hafa þeir skipst á að vinna sl. hálfan mánuð í þeirri von að þeir verði ekki báðir veirunni að bráð á sama tíma. Annar þessara netamanna er Guðni Hjörleifsson og frétti heimasíðan að nú væri hann búinn að breyta bílskúrnum sínum í netaverkstæði og farinn að vinna heima. Slegið var á þráðinn til Guðna og hann spurður nánar út í þessi tíðindi:
 
„Jú, það er rétt, bílskúrinn er orðinn að netaverkstæði. Þannig er að sl. þriðjudag fór konan mín, Rósa Sveinsdóttir, í sýnatöku vegna þess að vinnufélagi hennar greindist með veiruna. Rétt þótti að ég færi einnig í sýnatöku og erum við lokuð af þar til niðurstaða berst. Ég hef að undanförnu einungis unnið annan hvern dag á netaverkstæði Bergs-Hugins og mér leist ekkert á að þurfa að hætta alfarið að vinna ef við til dæmis þyrftum að fara í langvarandi sóttkví. Ég nenni bara alls ekki að sitja auðum höndum og þess vegna datt mér í hug að best væri að fá verkefni af netaverkstæðinu heim. Ég útbjó bílskúrinn og vinnufélagi minn færði mér síðan efni og verkfæri – hann skildi þetta eftir hérna fyrir framan húsið. Núna vinn ég í bílskúrnum við það að setja upp nýjan poka fyrir Vestmannaey VE og nú leiðist mér alls ekki. Og það sem meira er að nú get ég unnið hvern dag en ekki einungis annan hvern eins og á verkstæðinu. Þetta sýnir að það geta margir tekið vinnuna með sér heim. Það er allavega ekki einungis skrifstofufólk sem vinnur við tölvur sem á kost á slíku,“ segir Guðni Hjörleifsson.