
Skipstjóri í siglingunni til Kanaríeyja var Tómas Kárason og segir hann ferðina hafa gengið vel í alla staði. „Það var siglt beint í suður, 180 gráður, alla leiðina og tók siglingin sjö og hálfan sólarhring. Við vorum sjö um borð og nutum ferðarinnar til hins ítrasta. Þegar við vorum út af Biskajaflóanum fengum við meðvind og það var siglt á 12 mílum það sem eftir var. Þegar til Las Palmas var komið var lagst að bryggju og síðan var skipið tekið í þurrdokk. Það virðist líta vel út í alla staði og skrokkurinn og skrúfan virtust í besta standi. Í reynd hafa menn formlega kvatt þetta merka aflaskip með söknuði og óskað því velfarnaðar í höndum nýrra eigenda. Það eru margir sem hugsa til skipsins með mikilli hlýju og eiga ljúfar minningar sem tengjast því. Einn okkar manna, Hjörvar Sigurjónsson, mun fara fyrsta túrinn á skipinu eftir eigendaskiptin og mun hann miðla nýrri áhöfn af reynslu sinni,“ sagði Tómas.
Birtingur NK í þurrdokk í Las Palmas. Ljósm. Hjörvar M. Sigurjónsson
Í gær var unnið við að mála nýtt nafn og númer á skipið. Ljósm. Tómas Kárason
