Börkur NK  Mynd 2

Börkur NK kemur til heimahafnar eftir gagngerar breytingar í Póllandi 1998.

Í gærkvöldi hélt Birtingur NK (áður Börkur NK) frá Neskaupstað áleiðis til Las Palmas á Kanaríeyjum en þangað er um átta sólarhringa sigling. Skipið hefur verið selt pólsku fyrirtæki sem ber heitið Atlantex og mun skipið fá nafnið Janus þegar það verður formlega afhent hinum nýja eiganda í Las Palmas.

                Birtingur NK á sér svo sannarlega merka sögu. Skipið var smíðað í Þrándheimi í Noregi árið 1968 fyrir norskt fyrirtæki en átti heimahöfn í Hamilton á Bermudaeyjum. Fyrstu árin var það gert út til nótaveiða við strendur Afríku en útgerðin gekk afar illa. Árið 1973 festi Síldarvinnslan kaup á skipinu og kom það í fyrsta sinn til heimahafnar í Neskaupstað hinn 10. febrúar það ár. Skipinu var gefið nafnið Börkur og vegna stærðarinnar og mikillar burðargetu var það gjarnan nefnt „Stóri-Börkur“. Og nafn skipsins var Börkur allt til ársins 2012 en þá fékk það nafnið Birtingur. Í upphafi var skipið keypt með loðnuveiðar og kolmunnaveiðar í huga.

                Lengi vel gekk erfiðlega að finna skipinu nægjanleg verkefni eftir að það komst í eigu Síldarvinnslunnar og stóð reyndar til að selja það árið 1976 en aldrei kom þó til þess. Sem dæmi um verkefni sem Börkur fékk að sinna má nefna að hann lagði stund á síld- og makrílveiðar í Norðursjó fyrstu fjögur sumrin sem Síldarvinnslan átti hann. Síðsumars árið 1975 var hann sendur til loðnuveiða í Barentshafi en fyrr um árið hafði hann veitt hrossamakríl undan ströndum norðvestur Afríku. Þá má geta þess að um árabil var Börkur nýttur til að sigla með ísaðan fisk frá Neskaupstað til Grimsby yfir sumarmánuðina og til baka flutti hann ódýra olíu sem Síldarvinnsluskipin nýttu. Með tímanum jukust síðan verkefni skipsins og var unnt að halda því úti til fiskjar á heimamiðum stærstan hluta hvers árs.

Börkur NK  Mynd 1

Börkur NK eins og hann leit út til ársins 1998.

Litlar breytingar voru gerðar á Berki fyrstu 25 árin sem hann var í eigu Síldarvinnslunnar ef undan eru skilin vélaskipti árið 1979 en þá fékk skipið öflugri vél. Í janúarmánuði 1998 kom Börkur hins vegar til heimahafnar frá Póllandi þar sem gerðar höfðu verið gagngerar breytingar á skipinu. Það var lengt um tæplega 15 metra, settur á það bakki, perustefni, ný brú og allar vistarverur skipverja endurnýjaðar. Eins var allur spilbúnaður endurnýjaður, skipið útbúið til flotvörpuveiða og kælikerfi sett í lestar. Burðargetan að afloknum breytingunum var 1.800 tonn. Segja má að eftir þessar breytingar hafi harla lítið verið eftir af hinu upphaflega skipi annað en vélin. Árið 1999 hélt Börkur síðan til vélaskipta í Englandi og var þá sett í hann 7.400 hestafla vél af gerðinni Caterpillar.

                Afli Barkar (síðar Birtings) á þeim 43 árum sem hann hefur verið í eigu Síldarvinnslunnar nemur 1.546.235 tonnum og eru líkur á að ekkert íslenskt fiskiskip hafi borið jafn mikinn afla að landi. Vissulega var aflinn misjafn á milli ára, minnstur var hann í loðnuveiðibanninu 1982-1983, en mestur á árunum 2002 og 2003. Á árinu 2002 var afli skipsins 82.317 tonn og á árinu 2003 83.825 tonn.

                Í gærkvöldi heyrðu Norðfirðingar Caterpillar-hljóðið í Birtingi í síðasta sinn og víst er að margir eiga eftir að sakna þess. Hressilega var blásið í skipsflautuna í kveðjuskyni þegar látið var úr höfninni og flautan á Blængi tók undir, en hann var eina Síldarvinnsluskipið í höfn þá stundina. Á siglingunni til Las Palmas eru sjö í áhöfn Birtings, þar af þrír sem þekkja vel til þar um borð; Tómas Kárason skipstjóri, Þorsteinn Björgvinsson yfirvélstjóri og Hjörvar Sigurjónsson Moritz matsveinn. 

Hér fyrir neðan má sjá myndband af því þegar Birtingur hélt frá Neskaupstað áleiðis til Las Palmas. Myndbandið tók Hlynur Sveinsson: