Birtingur survey

Þær stöðvar sem rannsóknirnar ná til. Birtingur NK mun taka stöð 13-29. Ljósm: Grønlands Naturinstitut 

Á morgun er ráðgert að Birtingur NK láti úr höfn í Neskaupstað en Grønlands Naturinstitut hefur tekið skipið á leigu til makrílrannsókna. Fyrst verður haldið til Reykjavíkur þar sem rannsóknaleiðangurinn verður undirbúinn en síðan er ráðgert að rannsóknirnar fari fram dagana 28. júlí til 9. ágúst. Hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson mun einnig taka þátt í rannsóknunum. Ákveðnar hafa verið 29 togstöðvar og mun Árni Friðriksson toga á stöðvum 1-12 en Birtingur á stöðvum 13-29. Á meðfylgjandi korti sjást togstöðvarnar merktar og á því sést að Birtingur mun sinna rannsóknum bæði austan og vestan við Hvarf.

Skipstjóri á Birtingi í rannsóknaleiðangrinum verður Steinþór Hálfdanarson en átta manns verða í áhöfn. Auk áhafnarinnar verða fimm vísindamenn frá Grønlands Naturinstitut um borð. Leiðangursstjóri verður dr. Anna Ólafsdóttir.