Birtingur NK landar síld til vinnslu. Ljósm: Kristinn Agnar Eiríksson
Bæði Birtingur og Börkur eru á leið til Neskaupstaðar með síldarafla. Birtingur er með 750 tonn og væntanlegur síðdegis í dag og í kjölfar hans kemur Börkur með liðlega 1300 tonn. Tómas Kárason skipstjóri á Birtingi segir að aflinn hafi fengist í fimm holum. „Við byrjuðum í Jökuldýpinu og enduðum utan við Látragrunn. Undir lok túrsins var töluverða síld að sjá en aflinn hefur verið misjafn. Holin hjá okkur í þessum túr voru frá 50 tonnum og upp í 400 tonn. Það var bölvuð bræla megnið af túrnum, 18-20 metrar og haugasjór. Það er býsna leiðinlegt sjólag á þessum slóðum. Síldin sem fæst er hins vegar ágæt,“ sagði Tómas.
Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri á Berki segir að þeir verði komnir til Neskaupstaðar í fyrramálið. „Við fengum þennan afla í sjö holum um 90 mílur vestur úr Snæfellsnesi. Nú undir lokin virtist vera að koma fiskur utan úr hafi og það var mun meira en sjá en áður. Veðrið í túrnum hefur verið hundleiðinlegt og það er svo sannarlega gott að vera á stóru og öflugu skipi við svona aðstæður. Síldin er stór og góð og hlýtur að henta afar vel til vinnslu,“sagði Hjörvar.