Bjarni Ólafsson AK er orðinn Síldarvinnslublár. Ljósm. Þorgeir Baldursson

Bjarni Ólafsson AK hélt til Akureyrar í slipp snemma í júnímánuði. Þar var tekinn upp gírinn og skipið málað hátt og lágt. Bjarni mun leggja af stað austur til Neskaupstaðar í kvöld og hefja makrílveiðar hið fyrsta. Heimasíðan ræddi við Runólf Runólfsson skipstjóra og spurði fyrst hvort hann væri ekki spenntur fyrir makrílvertíðinni. „Jú, það er alltaf spennandi að hefja nýja vertíð. Við munum taka veiðarfærin í Neskaupstað á morgun og síðan verður stefnan tekin beint í Smuguna. Stærsta fréttin er að núna er Bjarni orðinn Síldarvinnslublár en hann hefur lengi verið gulur. Mér fannst hann alltaf fallegur gulur og það eru margar góðar minningar tengdar gula litnum, en sannast sagna er hann stórglæsilegur núna. Blái liturinn fer honum afskaplega vel. Það er eðlilegt að sé Bjarni sé málaður blár enda eignaðist Síldarvinnslan hlutafélagið Runólf Hallfreðsson ehf. 100% í aprílmánuði sl. og á þar með bátinn að öllu leyti. Ég er mjög sáttur við breytinguna á litnum, kveð gula litinn sáttur og fagna þeim bláa,“ segir Runólfur.