Bjarni Ólafsson AK hélt til kolmunnaveiða frá Neskaupstað um miðnætti sl. nótt. Heimasíðan ræddi við Þorkel Pétursson skipstjóra í morgun og spurði hvort veiðar væru hafnar. „Já, við vorum að kasta hérna á landgrunnskantinum austur af Glettinganesgrunninu. Það er haugasjór en hann fer brátt að ganga niður og verður væntanlega komin blíða þegar líður á daginn. Það er nú ekki mikið að sjá hérna, aðeins smáryk sem við ætlum að prufa að draga í. Við erum líka að prófa nýtt troll, við þurfum að læra á það. Það er enginn annar bátur á kolmunnaveiðum hér um slóðir. Hoffellið var hérna fyrir nokkrum dögum en það kom lítið út úr því hjá þeim. Þetta kemur allt í ljós og skýrist í kvöld. Það þýðir ekkert að draga á nóttunni því þá dreifir kolmunninn sér. Það er töluvert eftir af kolmunnakvótanum og það verður að reyna. Vonandi gengur þetta upp hjá okkur,“ segir Þorkell.