Einn af skipverjunum á Bjarna Ólafssyni AK og túnfiskarnirBjarni Ólafsson AK kom til Neskaupstaðar til löndunar sl. laugardag. Afli skipsins var 450 tonn og skiptist þannig að tæplega helmingur hans var makríll en rúmlega helmingur síld. Að auki færði skipið að landi meðafla sem vakti athygli, en það fékk hvorki fleiri né færri en 16 túnfiska í veiðiferðinni. Runólfur Runólfsson skipstjóri var ánægður með þennan óvænta afla og sagði eftirfarandi þegar heimasíðan ræddi við hann:“ Allir túnfiskarnir komu í eina og sama holinu. Við fórum út fyrir kantinn og tókum hol þar og þar virðist túnfiskur halda sig því Beitir NK fékk fjóra túnfiska á sömu slóðum fyrir nokkrum dögum. Þetta er óvenjulegt og ég man einungis eftir því að við á Bjarna Ólafssyni höfum einu sinni áður fengið túnfisk í trollið; það var fyrir allmörgum árum og þá voru fiskarnir sjö talsins. Fiskarnir 16 sem nú fengust voru af stærðinni 170-280 kg. en flestir þeirra voru í kringum 200 kg. að þyngd. Þegar í land var komið voru fiskarnir skornir. Við vorum svo heppnir að í Neskaupstað var staddur Japaninn Takahashi og stjórnaði hann skurðinum en Takahashi er fulltrúi japansks fyrirtækis sem kaupir mikinn fisk frá Íslandi og hefur góða þekkingu á því hvernig skal meðhöndla túnfisk. Áhöfnin á Bjarna Ólafssyni fékk að smakka túnfisk í gær og þótti hann góður. Í dag verður síðan efnt til heljarinnar túnfiskveislu um borð,“ sagði Runólfur Runólfsson að lokum.