Bjarni Ólafsson AK kom til Neskaupstaðar í morgun með 640 tonn af íslenskri sumargotssíld sem veiddist fyrir vestan land. Þetta er síðasta veiðiferð skipsins á vertíðinni. Runólfur Runólfsson skipstjóri sagði að þessi veiðiferð hefði gengið einstaklega vel. „Við fengum þennan afla í einu holi og toguðum einungis í rúmlega tvo tíma“, sagði Runólfur. Runólfur upplýsti að á miðunum mætti finna ágætar torfur, einkum síðari hluta dags í ljósaskiptunum. „Yfir hádaginn splundrast torfurnar gjarnan og þá er lítið að hafa“, sagði hann. Þetta hol sem við tókum í þessum túr var einmitt seinnipartshol; við köstuðum um klukkan hálf fjögur og tókum trollið rétt fyrir sex með þessum góða afla“, sagði Runólfur að lokum. Það má því segja að Bjarni Ólafsson hafi lokið vertíðinni með stæl.
Beitir NK lagði af stað af síldarmiðunum síðla dags í gær með 1050 tonna afla. Hann er væntanlegur til Neskaupstaðar í nótt. Börkur er að veiðum og fékk góðan afla í fyrsta holi.