Bjarni Ólafsson AK var nýlega til viðhalds í Slippnum á Akureyri. Ljósm. Þorgeir Baldursson

Í janúarmánuði árið 2003 undirrituðu stjórnir Síldarvinnslunar og SR – mjöls samrunaáætlun fyrir fyrirtækin. Með samrunanum eignaðist Síldarvinnslan 38% hlut í útgerðarfélaginu Runólfi Hallfreðssyni ehf. á Akranesi en Runólfur Hallfreðsson gerði út uppsjávarveiðiskipið Bjarna Ólafsson AK. Árið 2016 jók Síldarvinnslan eignarhlut sinn í útgerðarfélaginu í 75% en skipstjórarnir og bræðurnir Gísli og Runólfur Runólfssynir áttu 25% hlut. Gísli seldi sinn hlut í fyrirtækinu árið 2017 og Runólfur árið 2021 þannig að Síldarvinnslan er eini eigandi þess.

Árið 2015 var skip félagsins endurnýjað. Þá voru fest kaup á nóta- og togskipi sem er um 2000 tonn að stærð og smíðað árið 1999. Í skipinu er 7505 ha Wӓrtsilӓ vél. Bjarna Ólafssyni hefur ávallt verið vel við haldið og nýlega var skipið til viðhalds í Slippnum á Akureyri. Áhöfnin, sem var á Bjarna Ólafssyni, er nú á Barða NK en Bjarni Ólafsson hefur að undanförnu legið í Norðfjarðarhöfn. Hann er tilbúinn að hefja veiðar hvenær sem þörf er á en síðast var skipið nýtt á loðnuvertíðinni 2023 með góðum árangri.

Bjarni Ólafsson AK lítur vel út og er virkilega flottur í alla staði. Skipið er hið glæsilegasta og hefur ávallt reynst afar vel. Nú er Bjarni Ólafsson til sölu og víst er að væntanlegur kaupandi mun ekki verða svikinn af þeirri fjárfestingu.

Bjarni Ólafsson AK liggur nú í Norðfjarðarhöfn fínn og flottur. Ljósm. Smári Geirsson