Bjarni Ólafsson AK að ljúka við löndun í morgun. Ljósm. Smári Geirsson

Bjarni Ólafsson AK kom til Neskaupstaðar í gærkvöldi með fullfermi af kolmunna eða um 1.800 tonn. Heimasíðan ræddi við Þorkel Pétursson skipstjóra og spurði fyrst hvernig veiðin hefði gengið. „Það má segja að hún hafi gengið framar björtustu vonum. Aflinn fékkst í fimm holum en uppistaða aflans fékkst á þremur og hálfum sólarhring. Við byrjuðum á að fara út í Seyðisfjarðardýpið en þar var afskaplega lítið að hafa. Þá færðum við okkur í Rósagarðinn og þá fóru hlutirnir að gerast. Það er langt síðan sést hafa svona lóð á þessum árstíma þarna. Stærsta holið var 480 tonn og þá var dregið í sjö tíma. Við tókum svo annað 150 tonna hol þann daginn en það er ekki um neina næturveiði að ræða. Sannast sagna lítur þetta afskaplega vel út og það þurfti ekki mikið fyrir þessu að hafa þó fiskurinn væri svolítið botnlægur. Auðvitað flýgur fiskisagan og það er að fjölga skipum á þessum miðum. Hoffellið kom þegar við vorum búnir að vera að í einn og hálfan sólarhring og nú er Beitir kominn þarna og fleiri skip væntanleg. Við erum bara brattir og þetta lítur vel út. Það verður haldið til áframhaldandi veiða strax að löndun lokinni,“ segir Þorkell.