Bjarni Ólafsson AK siglir inn Norðfjörð með fyrsta kolmunnafarm vetrarins. Ljósm. Smári Geirsson Bjarni Ólafsson AK siglir inn Norðfjörð með fyrsta kolmunnafarm vetrarins.
Ljósm. Smári Geirsson
Bjarni Ólafsson AK kom til Neskaupstaðar skömmu fyrir hádegi í dag með fyrsta kolmunnafarminn sem þangað berst í vetur. Afli skipsins er 1700 tonn og fékkst hann í fimm holum í færeysku lögsögunni. Gísli Runólfsson skipstjóri segir að veiðin hafi verið góð í byrjun veiðiferðarinar en síðan hafi brælt og að brælu lokinni hafi þurft að leita í töluverðan tíma. „Það virðist vera töluvert af fiski á þessum slóðum og full ástæða til bjartsýni hvað varðar framhaldið,“ sagði Gísli.
 
Að sögn Gísla var Jón Kjartansson SU kominn til Eskifjarðar af kolmunnamiðunum með góðan afla og þá var Venus NS kominn á miðin. Fyrir utan þessi þrjú íslensku skip voru færeysk skip einnig að veiðum.