Beitir NK á loðnumiðunum. Ljósm. Þorgeir BaldurssonBeitir NK á loðnumiðunum. Ljósm. Þorgeir BaldurssonÞegar veður gekk niður í gær gerði góða veiði á loðnumiðunum norður af Húnaflóa. Skipin sem voru með djúpnót voru að fá góð köst en síður gekk að ná afla í grunnnót. 
 
Gert er ráð fyrir að Börkur komi til Neskaupstaðar um kl. 18 í dag með 1.400 tonn, þar af 1.000 tonn sem fara til vinnslu í fiskiðjuverinu. Polar Amaroq er einnig á leið til Neskaupstaðar með 1.900 tonn.
 
Vilhelm þorsteinsson er á leið til Seyðisfjarðar með 2.300 tonn og Bjarni Ólafsson til Helguvíkur með 1.300 tonn.
 
Gera má ráð fyrir að loðnuskipin taki almennt grunnnætur um borð og stefni á miðin úti fyrir Austur- og Suðausturlandi að lokinni löndun. Þar varð vart við loðnu á föstudag og laugardag og fékk Hákon þar nokkurn afla en hann er að landa 400 tonnum í Neskaupstað auk þess sem hann er einnig að landa frystri loðnu. Óhagstætt veður til veiða hefur verið fyrir austan en gert er ráð fyrir að komið verði gott veiðiveður þar á morgun. Annars sjást einnig góðar torfur annað slagið úti fyrir Norðurlandi og skipin eiga einnig möguleika á að halda þangað til veiða.
 
Beitir var kominn með 1.700 tonn í morgun og var lagður af stað í land þegar hann rakst á gríðarlega fínan flekk norðan til á Skagagrunni. Þegar var kastað og var verið að ljúka við að dæla um 400 tonnum úr kastinu um klukkan hálf ellefu. Þar með er Beitir kominn með fullfermi eða 2.100 tonn. Að sögn Tómasar Kárasonar skipstjóra var góð veiði í gær austan við Strandagrunn en köld tunga kom yfir svæðið í gærkvöldi og eftir það var lítið að sjá þar. 
 
Birtingur kom til löndunar í Neskaupstað um helgina og bíður veðurs á miðunum eystra.