Að sögn Sturlu Þórðarsonar skipstjóra fékkst aflinn í 7 – 8 köstum og þurfti mikið að hafa fyrir honum. Sturla segir að óvenjulegt ástand ríki á loðnumiðunum; loðnan sé dreifð og því nái skipin sjaldan góðum köstum. Um þetta leyti á venjulegri loðnuvertíð sé loðnan í stórum kekki við suðurströndina og mokveiði, en nú sé því ekki að heilsa. Þá sé óvenjulegt að loðna finnist víða við landið, bátar séu að fá afla norður við Grímsey og einnig við Vestmannaeyjar.
Sturla segist ekki muna eftir sambærilegu ástandi á hinum hefðbundnu loðnumiðum við suðurströndina um þetta leyti árs.
Aðspurður segist Sturla vera bjartsýnn á að loðnukvótinn náist þrátt fyrir að veiðin mætti vera kröftugri þessa dagana. Hann gerir fastlega ráð fyrir vesturgöngu og minnir á að stundum hafi loðnuveiðar staðið yfir allt fram í aprílmánuð.