DSC039641

Bjartur NK undirbúinn fyrir sitt 26. togararall. Ljósm: Hákon Ernuson

                Bjartur NK er það skip sem oftast hefur tekið þátt í togararalli. Í dag er ráðgert að hann haldi í sitt 26. rall. Togararall hefur farið fram árlega frá 1985 og er það mikilvægur þáttur í árlegu mati á stofnstærð botnfiska við landið. Hafrannsóknastofnun leitaði eftir tilboðum til þátttöku skipa í rallinu og varð niðurstaðan sú að auk Bjarts mun Ljósafell SU annast rallið þetta árið ásamt hafrannsóknaskipunum  Árna Friðrikssyni og Bjarna Sæmundssyni.

                Í rallinu mun Bjartur toga á 183 fyrirfram ákveðnum togstöðvum á svæðinu frá Eyjafirði að Gerpistotu og síðan á Þórsbanka suður að miðlínu. Að sögn Steinþórs Hálfdanarsonar skipstjóra á Bjarti er gert ráð fyrir að rallið taki um tuttugu daga en landað verði einu sinni á meðan á rallinu stendur. Steinþór segir að það sé ágætis tilbreyting fyrir áhöfnina að taka þátt í rallinu og sá tími einkennist af öðrum þankagangi en þegar hefðbundnar veiðar séu stundaðar. Þá sé líka afar ánægjulegt að taka þátt í ralli sem skilar jákvæðri niðurstöðu og ávallt vonist menn eftir slíkri niðurstöðu.